Landstólpi - Viðskiptaskilmálar

 

1. Greiðslur

Viðskiptavinur skuldbindur sig til að greiða alla útsenda reikninga frá Landstólpa eigi síðar en á eindaga. 
Gjalddagi reikninga er síðasti dagur úttektarmánaðar og eindagi 15. næsta mánaðar.
Sé krafa vegna útistandandi reikninga greidd eftir eindaga reiknast lögbundnir dráttarvextir ofan á kröfuna frá og með gjalddaga, auk innheimtukostnaðar sem kann að falla til.

2. Innheimta - Vanskil

Komi til vanskila viðskiptavinarins skal Landstólpa vera heimilt, en ekki skylt, að stöðva frekari úttektir uns fullnaðaruppgjör hefur átt sér stað gagnvart útistandandi reikningum, dráttarvöxtum og kostnaði.

Viðskiptavinur heimilar Landstólpa að tilkynna án fyrirvara um vanskil sem varað hafa lengur en 40 daga til Lánstrausts hf. til skráningar á vanskilaskrá. Viðskiptavinurinn veitir Landstólpa fullt og óskorað umboð til að sækja upplýsingar um viðskiptavininn til Lánstrausts hvenær sem er, enda hefur Landstólpi lögvarða hagsmuni af notkun umræddra upplýsinga skv. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þær upplýsingar sem kunna að verða sóttar eru upplýsingar úr vanskilaskrá og lánshæfismat viðskiptavinar svo meta megi líkur á vanskilum tólf mánuði fram í tímann.

3. Kjör viðskiptavinar

Viðskiptakjör sem viðskiptavinurinn hefur notið hjá Landstólpa geta breyst eða fallið niður án fyrirvara hvenær sem er og án þess að Landstólpa sé skylt að tilkynna viðskiptavininum um breytt viðskiptakjör.

Viðskiptaskilmálar

4. Söluveð

Þær vörur sem viðskiptavinur kaupir hverju sinni á grundvelli reikningsviðskiptasamnings og skv. útgefnum reikningum Landstólpa skulu vera settar Landstólpa að veði þar til kaupverðið hefur að fullu verið innt af hendi, sbr. 35. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997. Hið veðsetta er sett að veði til tryggingar greiðslu kaupverðsins ásamt áföllnum vöxtum, þ.m.t. dráttarvöxtum og vanskilaálagi og eftir atvikum öllum kostnaði veðhafa við innheimtu kaupverðsins, hverju nafni sem nefnist. Nánari tilgreining á hinum veðsettu verðmætum og kaupverði þeirra sem söluveðréttur Landstólpa nær til kemur fram í útgefnum reikningum hverju sinni sem skoðast sem órjúfanlegur hluti samnings þessa.

 Séu atvik með þeim hætti að viðskiptavinur hefur ekki staðið við greiðslu útistandandi reikninga og vanefnd á greiðslu reiknings hefur staðið í 30 daga eða lengur áskilur Landstólpi sér eftirfarandi úrræði:

a)   að rifta samningi og taka til sín hið veðsetta; eða
b)   krefjast nauðungarsölu, sbr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.

Til  veðsins er stofnað á grundvelli 38. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997. 
Að kröfu Landstólpa samþykkir viðskiptavinur og skuldbindur sig til að afhenda hið veðsetta án tafar.
Að öðru leyti en hér greinir fer um söluveðrétt Landstólpa eftir lögum um samningsveð nr. 75/1997.

5. Sjálfskuldarábyrgð, ef lögaðili

Undirritaður aðili, samþykkir að gangast undir in solidum sjálfskuldarábyrgð til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar af vanskilum og innheimtuaðgerðum sem kann að leiða af fullnustu skuldar í nafni viðskiptavinarins.

6. Önnur mál

Reikningsviðskiptasamning má undirrita í tveimur eða fleiri hliðstæðum eintökum, og skal hvert og eitt þeirra teljast frumrit, en öll eintökin saman skulu teljast einn og sami samningurinn.

Komi upp ágreiningur á milli aðila skuli aðilar leitast við að ná sáttum en ella skal stefna ágreiningnum til úrlausnar Héraðsdóms Suðurlands.