"Auðveldari vinna og við treystum því að Merlin sé miklu betri mjaltamaður en við!"

Nýr Fullwood Merlin mjaltaþjónn á Steindyrum í Svarfaðardal

 

 Síðustu dagar hafa verið annasamir hjá þeim hjónum að Steindyrum í Svarfaðardal. Þau Gunnhildur Gylfadóttir og Hjálmar Herbertsson voru að festa kaup á Fullwood Merlin mjaltaþjóni sem þau hafa verið að koma fyrir ásamt mönnum úr þjónustudeild Landstólpa. Við heyrðum hljóðið í þeim hjónum og forvitnuðumst um hvernig uppsetningarferlið og gangsetningin hefði gengið.

 „Elvar uppsetningarmaður hafði hug á að setja 2-3 kýr í gegnum mjaltaþjóninn á miðvikudegi.  Í kvöldmjaltatímanum var svo allt tilbúið fyrir það og fyrsta kýrin var rekin inn.  Synir okkar tveir, Jón Bjarki og Herbert voru hér ásamt Frey Brynjarssyni og sáu um að hjálpa Elvari og læra af honum.  Allt gekk samkvæmt áætlun og þeir vildu aðra.  Þetta endaði svo með því að það voru 19 kýr settar í gegn í þessari prufu og máttum við Hjálmar hafa okkur öll við að fá að mjólka einhverjar með gamla laginu.  Strákarnir fóru hamförum og fannst þetta mjög skemmtilegt.  Á fimmtudagsmorgni var svo formlega sett í gang og allt hefur haldið áfram að ganga vel síðan.  Erum meira að segja búin að prufa að verða rafmagnslaus í tvo tíma svo Elvar hefur fengið að prufukeyra allt með okkur.
Kýrnar hafa verið kjánalega rólegar og allt gengið áreynslulaust“
 Við vissum að við ættum einhverjar kýr sem ekki væri hægt að mjólka í mjaltaþjóni en hann er samt ótrúlega fær.  Hann mjólkar t.d eina sem er með stóra millispena báðu megin.  Héldum að hún yrði sú fyrsta sem færi á sláturhúsið.  Viðmótið á skjánum er mjög gott og auðvelt fyrir alla að læra á það. 
 Uppsetningin á mjaltaþjóninum gekk vel.  Veðurguðirnir hafa svosem ekkert verið að hjálpa til og hefur það tafið ýmislegt.  Uppsetningarteymið þeir Elvar, Illugi og Laslo hafa verið frábærir og tekið öllu með stóískri ró og brosi á vör.  Þessir öðlingar eiga allan heiður skilið fyrir hjálpina. Sem betur fer gistu þeir hjá okkur á milli helga því annars væri ekkert farið í gang vegna ófærðar.  Það var erfitt að trúa því þegar þeir mættu með endalaust marga kassa fulla af dóti að þetta ætti eftir að verða að einhverju gáfulegu!
 Ennþá eru 4 kýr sem þarf að setja handvirkt á og koma til með að tína tölunni í framtíðinni.  Svo eru nokkrar sem þarf að ýta aðeins við en  við erum alveg róleg ennþá með það. 
 Framhaldið leggst vel í okkur.  Við eigum ennþá eftir að breyta gamla fjósinu fyrir geldkýr og burðarstíur.  Vonir stóðu til að þetta yrði búið fyrir vorið en tíminn sem hefur farið í snjómokstur og á eftir að fara í snjómokstur seinkar því sennilega.  Þegar allt verður klárt verður þetta frábært.  Auðveldari vinna og við treystum því að Merlin sé miklu betri mjaltamaður en við!

Við þökkum þeim Gunnhildi og Hjálmari fyrir að gefa sér tíma í að svala forvitni okkar og óskum þeim áframhaldandi góðs gengis með nýja „mjaltamanninn“