Lambhagabúið ehf. - Til hamingju :)

Laugardaginn 6. júlí sl. var opið fjós að Lambhaga og Landstólpi var á staðnum.

Við náðum að smella nokkrum myndum af fyrir opnun. 

Við óskum Lambhagabúinu ehf. innilega til hamingju með nýtt og glæsilegt fjós. 

Hér að neðan má lesa örlítinn texta um Lambhaga fyrir áhugasama :)

Um Lambhaga

Helgi Jónsson (f. 6. júlí 1943, d. 7. apríl 1993) og Sjöfn Guðmundsdóttir keyptu Lambhaga vorið 1970 og hófu þar búskap með 21 nautgrip og 28 ær við bágborinn húsakost. Helgi og Sjöfn eignuðust 6 börn og búa nú tveir synir þeirra í Lambhaga ásamt fjölskyldum sínum og móður og reka þau í sameiningu Lambhagabúið ehf. Í Lambhaga eru þrjú íbúðarhús og  gripahús fyrir bústofninn.

Í Lambhaga er rekið blandað bú með áherslu á mjólkurframleiðslu og nautakjötsframleiðslu. Bústofn telur nú um 450 nautgripir, þar af 95 mjólkurkýr og 75 holdakýr, 100 ær, 25 hænur, 3 hross, hundarnir Týra og Perla og nokkrir kettir.

Jörðin er um 450 hektarar, þar af um 280 hektarar ræktað land og er hluti af því nýttur til beitar. Um 1970 var jörðin nánast öll sandur og ræktað land aðeins um 20 hektarar. Ábúendur hafa verið iðnir í landgræslu og er nú nánast öll jörðin uppgrædd. Hafa einnig ræktað um 60 hektara af sandi frá Landgræslu ríkisins og leigja og nýta nú sem tún.

Ábúendur:

Sjöfn Guðmundsdóttir
Ómar Helgason og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, börn: Kolfinna Sjöfn (12), Hafdís Laufey (8), Hrafnkell Frosti (6), Helgi Tómas (4).
Björgvin Reynir Helgason og Dóra Steinsdóttir, börn: Ásberg Ævarr (7), Þorbjörg Helga (5), Steinn Skúli (2), Pétur Freyr (1).

Um fjósið

Fyrsta steypan í haughúsi var 11. Júlí 2018 og sá BT-Mót (Birkir Tómasson á Móeiðarhvoli) um uppslátt og alla steypuvinnu. Haughúsin eru tvö ,undir öllu húsinu, og eru þau með kanalkerfi þar sem skrúfur sjá um að halda mykjunni blandaðri svo auðvelt sé tæma þau.

Húsið sjálft er stálgrindarhús frá Landstólpa, klætt með yleiningum og hófst uppsetning á því í byrjun janúar s.l. Það er um 1700 m2 og rúmar um 140-150 kýr (mjólkandi sem og kýr í geldstöðu). Gert er ráð fyrir geldkúm í öðrum enda hússins, þar tekur við burðarstía og velferðarpláss, þar sem kýr sem þurfa sérstakt eftirlit geta verið aðskildar frá hjörðinni, en komist samt í mjaltir. Einnig eru smákálfaeinstaklingsstíur fyrir nýfædda kálfa og færast þeir svo í stærri stíu viku gamlir. Þegar þeir eru 6-8 vikna gamlir hætta þeir að fá mjólk og færast þá í önnur gripahús til eldis. Innréttingar og dýnur koma frá Landstólpa og eru alls 140 legubásar í fjósinu.

Þetta fjós er búið nýjustu tækni. Í fjósinu eru tveir Fullwood Merlin mjaltarþjónar (róbótar) og anna þeir um 120 kúm í einu. Svokallaður flórgoði (róbót) sér um að hreinsa flórinn. Einnig eru þrír kúaburstar til að auka vellíðan kúnna. Trioliet gjafakerfi sér svo um að blanda fóður, dælir í gjafavagn og gefur kúnum nokkrum sinnum á sólarhring og sópar að í leiðinni, þannig fá kýrnar alltaf ferskt og lystugt fóður. Þess má geta að mjaltarþjónarnir, flórgoðinn og gjafakerfið eru allir háðir ljósleiðaratenginu. Einnig eru í fjósinu 5 eftirlitsmyndavélar frá Nova og er hægt að komast í þær og fylgjast með appi í símum ábúenda. Utan við fjósið er 12.000 lítra mjólkurtankur frá Fullwood.

Ætlunin er að taka fjósið í notkun byrjun næstu viku.