Nýjung á Íslandi - Burðarboði

Landstólpi kynnir nýjung á Íslandi, burðarboða fyrir kýr.

Burðarboðinn er settur á halann á kúnni og lætur vita þegar kýrin er að fara að bera, ca. 2-3 klst fyrir burð með því að senda eiganda SMS. Tækið nemur aukna virkni hjá kúnni og sendir fyrsta skilaboð þegar aukin virkni er búin að vera í klukkustund. Klukkutíma síðar sendir það svo önnur skilaboð um stöðuga tveggja klukkustunda virkni. Þessi nýjung kemur til með að létta bændum allt eftirlit með burði og tryggja þar með velferð gripanna betur.  

Við gerðum skemmtilega tilraun með burðarboðann um daginn. Klukkan 7:30 fengum við skilaboð að kýrin væri farin að sýna aukna virkni á hala, og var hún því rekin inn í burðarstíu. Klukkan 8:30 kom annað skilaboð að virknin væri búin að vera í 2 klst. Klukkan 10 var komin þessi fallega kvíga sem fékk nafnið Baula.

Á ensku kallast þetta tæki Moocall en okkur fannst nauðsynlegt að það bæri íslenskt nafn og efndum því til nafnaleiks. Skemmst er frá því að segja að undirtektir voru frábærar og mörg viðeigandi og skemmtileg nöfn bárust. Fyrir valinu varð nafnið BURÐARBOÐI sem okkur fannst bæði íslenskt og lýsandi. Þó nokkrir aðilar áttu þessa tillögu en fyrstur til að koma með hana var Baldur Örn Samúelsson og telst hann því vera réttmætur vinningshafi nafnaleikisins.

Um leið og við þökkum öllum þeim sem komu með hugmyndir að nafnagift og innlegg í umræðuna, óskum við Baldri Erni innilega til hamingju með vinninginn- burðarboðann – og vonum að hann komi í góðar þarfir.

Frekari upplýsingar um burðarboðann veita sölumenn okkar í síma 480-5600.